*

sunnudagur, 20. júní 2021
Innlent 29. janúar 2021 09:08

Markmið um kynjahlutföll náist ekki

Samkvæmt greiningu Creditinfo nást markmið Jafnvægisvogarinnar um 40/60 kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum árið 2027 ekki að óbreyttu.

Ritstjórn
Frá Jafnvægisvoginni árið 2020.
Aðsend mynd

Á síðasta ári voru konur einungis ráðnar framkvæmdastjórar í fjórðungi tilvika samkvæmt greiningu Creditinfo á ráðningum í framkvæmdastjórastöður fyrirtækja hér á landi síðustu ár. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá niðurstöðum greinaingarinnar segir að stórátak þurfi til að markmið Jafnvægisvogarinnar náist.

Að óbreyttu náist ekki markmið Jafnvægisvogarinnar um að árið 2027 verða hlutfall á milli kynja að minnsta kosti 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.

„Jafnvægisvogin er samstarfsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), forsætisráðuneytisins, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Morgunblaðsins. Verkefninu var komið á fót á árinu 2017 og hefur átt þátt í að styðja við virði fjölbreytileika og jafnvægi með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum,“ segir í fréttatilkynningu

Greiningin leiði í ljós að á nýliðnu ári hafi konur einungis verið ráðnar sem framkvæmdastjórar í um 25 prósentum tilvika. Sem sé þó töluvert yfir meðaltali síðustu fimm ára, sem er 20 prósent.

Nú sé staðan sú að þegar horft sé til virkra fyrirtækja séu konur framkvæmdastjórar í um 18 prósentum þeirra, en einungis í um 13 prósentum fyrirtækja er horft er á rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækin. 

„Vissulega er jákvætt að fleiri konur voru í fyrra ráðnar í stöðu framkvæmdastjóra en verið hefur að jafnaði en betur má ef duga skal. Miðað við núverandi hlutfall kvenna í nýráðningum framkvæmdastjóra er ljóst að markmið Jafnvægisvogarinnar um 60/40 hlutfall árið 2027 næst ekki. Eigi hlutur kvenna í framkvæmdastjóratöðum að ná 40 prósentum fyrir tilsettan tíma þarf hlutfall kvenna af nýráðningum að verða á bilinu 58 til 70 prósent fram til ársins 2027. Markmiðið ætti kannski að snúast um að auka hlutfall kvenna af nýráðningum upp í að minnsta kosti 50 prósent í öllum geirum. Þar geta stjórnendur strax haft áhrif," segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, í fréttatilkynningu.

„Tölurnar leiða ýmislegt forvitnilegt í ljós, svo sem að líklegra er að kona taki við starfi framkvæmda­stjóra hafi forveri hennar í starfi einnig verið kona. Eins, ef horft er til framkvæmdastjóraskipta síðustu fimm ár, þá er kona líklegri til að taka við stöðunni af karli í fyrirtækjum í sérfræðivinnu (29%), en til dæmis í fjármála-,  vátrygginga- og fasteignastarfsemi (18%). Í ferðaþjónustu og afþreyingu er hlutfallið 21%, 10% meðal framleiðslufyrirtækja og einungis 3% í landbúnaði, skógrækt og sjávarútvegi,“ segir í tilkynningunni.

Um greininguna:

  • Í greiningu Creditinfo var skoðuðu kynjasamsetning framkvæmdastjóra í íslenskum fyrirtækjum samkvæmt skráningu í Fyrirtækjaskrá RSK. Lögð voru til grundvallar um 6.000 virk fyrirtæki með tekjur yfir 30 milljónum króna síðustu þrjú ár, að undanskildum eignarhaldsfélögum. Greiningin byggir svo að mestu á rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækjunum úr þessum hópi, en þar er átt við virk fyrirtæki með að minnsta kosti 350 milljónir króna í tekjur síðastliðin þrjú ár. Þá er gert ráð fyrir að um 10 prósent fyrirtækjanna skipti um framkvæmdastjóra á ári hverju.
  • Horft var sérstaklega til þúsund tekjuhæstu fyrirtækjanna vegna þess að þau eru líklegri til að skrá framkvæmdastjóra og halda þeirri skráningu við. Hjá mörgum minni fyrirtækjum vantar skráningu á framkvæmdastjóra og eins má gera ráð fyrir að sami framkvæmdastjóri sé líklegri til að sitja lengi í minni fyrirtækjum, til dæmis ef meirihlutaeigendur eru tengdir fjölskylduböndum.