Leifur A. Kristjánsson og Kristinn Aspelund, sem hafa unnið hjá fyrirtækinu Marorku síðastliðin 15 ár, söðla nú um og þróa hugbúnaðarlausn sem auðveldar eigendum og leigjendum flutningaskipa að fylgjast með orkunýtni skipanna á sameiginlegum forsendum.

„Í rauninni byggir þetta verkefni á því að í flutningaskipabransanum úti í hinum stóra heimi er það yfirleitt sinn hvor aðilinn sem annars vegar á skipin, og hins vegar sá sem leigir skipin og notar þau til flutninga,“ segir Leifur, meðstofnandi Ankeris. Hann segir jafnframt að þeir hafi báðir hlotið talsverða reynslu af orkustjórnun skipa í gegnum störf sín fyrir Marorku og hafi tekið eftir því að ákveðin hindrun er til staðar varðandi upptöku og notkun á þeim fjölmörgu orkustjórnunarkerfum sem eru í boði á skipamarkaðnum í dag.

„Hindrunin felst oft á tíðum í því að það eru eigendur skipanna sem þurfa að fjárfesta í búnaði og orkusparandi tækni fyrir skipin. Á sama tíma eru það leigjendurnir sem borga olíuna og njóta ávinningsins af því að eigendur skipanna fjárfesta í góðum búnaði. Auðvitað ætti þetta að skila sér í hagstæðara leiguverði fyrir þau skip sem hafa góða orkunýtingu. Nýlegar rannsóknir sína þó að svo er ekki. Leigjendur eiga oft erfitt með að fá áreiðanlegar upplýsingar og finna þessi skip sem eru raunverulega hagkvæmari í rekstri orkulega. Þetta er mikið skoðað út frá orkunotkun hjá okkur þar sem að olíunotkun þessara skipa sem við erum að vinna með er á bilinu 30-60% af rekstrarkostnaði skipanna,“ bætir Leifur við.

Þeir félagar vinna nú að því að hanna hugbúnaðarlausn til að ráða lausn á þessum vanda. „Hún hefur það að markmiði að auka gagnsæi og samtal milli eigenda og leigjenda skipa. Þannig mun hún hjálpa leigjendunum að finna þessi hagkvæmu skip sem hafa á árangursríkan hátt fjárfest í orkusparandi tækni auk þess sem hún mun hjálpa eigendunum að markaðssetja skipin sín byggt á hagkvæmni þeirra,“ tekur hann fram.

Með 25 ára reynslu samanlagt

Kristinn og Leifur hafa samanlagt 25 ára reynslu í orkustjórnun fyrir flutningaskip. Kristinn er annar af meðstofnendum Marorku og Leifur kom inn í fyrirtækið tiltölulega fljótlega eftir stofnun. „Nú er Marorka búin að þróast og þroskast og er orðið alþjóðlegt og flott fyrirtæki, leiðandi í heiminum í því sem þau eru að gera. Nú eru það nýjar áskoranir fyrir okkur tvo,“ segir Leifur.

Leifur tekur fram að Ankeri hyggist fjölga starfsmönnum þegar líður á árið. „Við erum í dag með skrifstofu niður í Skeifunni, þar fer vel um okkur tvo og við getum bætt örlítið við okkur þar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .