Tónlistarmenn munu fá endurgreiddan 25% af kostnaði vegna hljóðritunar á tónlist sinni á Íslandi samkvæmt lögum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram og samþykkt voru á Alþingi í dag. Nýju lögin byggja á sömu hugmyndafræði og lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir lögin marka tímamót fyrir íslenskan tónlistariðnað. Að hennar sögn hafa sambærilegar ívilnanir eflt íslenskan kvikmyndaiðnað til muna og nú sé komið að íslenskri tónlist.

Markmið nýju laganna er því að efla tónlistariðnaðinn sem iðngrein hér á landi með því að styðja við hljóðritun tónlistar. Útgefendur tónlistar munu njóta ívilnana í formi endurgreiðslu á hluta af kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar.

Sá kostnaður sem verður endurgreiðsluhæfur er tímagjald í hljóðveri, launakostnaður aðkeyptra flytjenda og tæknimanna, eftirvinnsla, ferða- og flutningskostnaður og eigin vinna tónlistarmannsins.

Þrátt fyrir að vegur íslenskrar tónlistar hafi farið ört vaxandi á undanförnum árum hefur rekstrargrundvöllur útgáfuaðila tónlistar á Íslandi aftur á móti veikst. Má það rekja til þess að rafræn sala á tónlist hefur ekki enn náð fótfestu og sala á hljómdiskum hefur hrunið. Íslenskur tónlistariðnaður býr að auki við erfið starfsskilyrði sökum smæðar markaðs og takmarkaðs fjármagns.

Nýja endurgreiðslukerfið vegna hljóðritunar á sér ekki hliðstæðu og er því vonast til að erlendir aðilar sjái sér leik á borði með að koma og hljóðrita tónlist á Íslandi og að slík innkoma geti gefið íslenskum tónlistariðnaði sömu jákvæðu innspýtinguna og endurgreiðslukerfið hefur gert fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað.

Frumvarpið mun öðlast gildi 1. janúar 2017 og gildistími laganna er til næstu fimm ára.