„Nýja starfið leggst mjög vel í mig. Mér þykir spennandi að fá tækifæri til þess að starfa innan orku- og veitugeirans,“ segir Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, nýr fagsviðsstjóri hjá Samorku, en hún hefur þegar hafið störf.

„Ég menntaði mig í vatns- og fráveitumálum en hef kannski ekki mikið verið að starfa í því síðastliðin ár, heldur hef ég meðal annars verið að starfa fyrir fyrirtæki í raforkugeiranum. Mér þykir því spennandi að snúa mér aftur að vatns- og fráveitumálunum, ásamt því að halda áfram að eiga í samstarfi við raforkufyrirtækin. Orku- og veitufyrirtækin eru mjög kerfislega mikilvæg, þar sem þau meðal annars skaffa heitt og kalt vatn, fráveitur og rafmagn fyrir öll heimili og fyrirtæki í landinu. Samorka styður við alla þessa starfsemi hvað varðar upplýsingaöflun og samskipti við stjórnvöld um allt sem varðar geirann. Þetta er því spennandi vettvangur og mörg skemmtileg verkefni framundan.“

Áður en Gyða hóf störf hjá Samorku hafði hún starfað í níu ár hjá verkfræðistofunni EFLU. Hún segir að sér hafi þótt kominn tími til að breyta til og takast á við nýjar áskoranir, en viðurkennir að það hafi þó verið erfitt að kveðja fyrrverandi samstarfsfólk sitt.

Utan vinnu eyðir Gyða flestum stundum sínum með fjölskyldu sinni og vinum. Eiginmaður hennar heitir Kristján Ingvi og er hann rétt eins og Gyða verkfræðimenntaður. Saman eiga þau börnin Dag, sem er fimm ára og Kristínu, sem er tveggja ára. Það er því mikið líf og fjör á heimilinu, en fjölskyldan býr í Grafarvogi.

„Ég og maðurinn minn höfum mjög mikinn áhuga á skíðamennsku og næst á dagskrá er að taka börnin með á skíði, þannig að við getum öll fjölskyldan skellt okkur saman í brekkurnar.“ Gyða kveðst jafnvel sjá fyrir sér að fjölskyldan muni koma til með að leggja land undir fót og halda í skíðaferðalög erlendis, með tíð og tíma.

Gyða hefur einnig mikinn áhuga á að stunda líkamsrækt og þá sérstaklega hlaup. „Mér finnst mjög gaman að hlaupa en hef reyndar verið að glíma við meiðsli undanfarið og því lítið getað sinnt þeim. Ég hef nokkrum sinnum hlaupið  tíu km í Reykjavíkurmaraþoninu en langtímamarkmiðið er að hlaupa hálft maraþon.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .