Sjóvá er sjöunda félagið sem skráð er á Kauphöllina á Norðurlöndunum í ár, það er NASDAQ OMX Nordic. Það er jafnframt það fyrsta á NASDAQ OMX Iceland í ár.

Sjóvá er sérstakt að því leytinu til að það er stærst íslenskra vátryggingafélaga á sviði líf- og heilsutrygginga og næst stærst á sviði skaðatrygginga. Starfstöðvar félagsins eru tólf víðsvegar um landið og fjöldi starfsmanna er um 200.

„Við höfðum það að markmiði frá byrjun að tryggja mjög dreifða eignaraðild á meðal almennings,” sagði Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, í tilkynningu vegna skráningarinnar. „Við erum því afskaplega ánægð með þann áhuga sem fjárfestar hafa sýnt félaginu og bjóðum alla nýja hluthafa velkomna. Við höfum unnið af kostgæfni við að styrkja bæði fjárhagslegan grunn sem og innviði fyrirtækisins fyrir skráningu þess og trúum að við munum styrkjast enn frekar við skráningu á hlutabréfamarkaðinn,” segir hann enn fremur.