„Þetta leggst vel í okkur,“ segir Guðmundur Hauksson, forstjóri Spron í samtali við Viðskiptablaðið vegna sameiningar Kaupþings og Spron sem tilkynnt var um í dag.

„Markmiðið hefur verið að efla félagið enn frekar og ég tel að með sameiningunni takist okkur það,“ segir Guðmundur.

Aðspurður um endurgjaldsverð til hluthafa fyrir hlut þeirra í Spron segist Guðmdunur telja að það sé sanngjarnt. Hann minnir þó á að enn eiga hluthafar Spron eftir að samþykkja samrunann.

„Þetta er markaður sem er sífellt á hreyfingu en ég tel að þetta verð sé nokkuð sanngjarnt;“ segir Guðmundur.

Guðmundur segir ekki neinar breytingar fyrirhugaðar innan Spron í kjölfar sameiningarinnar.

„Það verða engar breytingar gagnvart viðskiptavinum Spron. Þeir okkar munu ekki finna fyrir neinum breytingum þegar kemur að þeirra daglegu bankaviðskiptum,“ segir Guðmundur.

„Þeir halda áfram að fara í sama banka og hitta sama starfsfólkið.“

Guðmundur segir að hins vegar muni bakland Spron eflast með sameiningunni og því verði hægt að hagræða í rekstri þegar fram líða stundir.