Síðasta ár var bresku smávöruverslunarkeðjunni Marks & Spencer ekki gott. Því segir 8,2% söluaukning frá því í fyrra miðað við sama fjölda verslana ekki nema hálfa söguna. Sala M&S á vörum öðrum en matvörum jókst um 10,7% en það er engu að síður minna en fyrir tveimur árum síðan, miðað við sama fjölda verslana.

Þetta bendir til þess að Marks & Spencer eigi enn langt í land með verslanir sínar en þær eru 375 talsins í Bretlandi. Um leið og hlutur fyrirtækisins á breska tískuvörumarkaðinum hefur aukist úr 9,3% í 10% á síðasta ári mun fyrirtækið þurfa að ná minnst 12% hlut til að fjárfestar kætist.

Ekki hjálpar heldur til að Marks & Spencer er feimið við að viðurkenna hvernig fyrirtækinu gengur utan Bretlands. Á meginlandi Evrópu, í Mið-Austurlöndum og Asíu eru reknar 198 verslanir undir merkjum Marks & Spencer. Fyrirtækið loks náð að selja bandarísku matvöruverslanakeðjuna King eftir fjölmargar tilraunir. Marks & Spencer fékk 35 milljónir punda, sem samsvarar 4,8 milljörðum íslenskra króna fyrir keðjuna, sem er helmingur þess sem greitt var fyrir King árið 1988. Þrátt fyrir lélegt söluverð losna stjórnendur Marks & Spencer að minnsta kosti við áhyggjurnar af bandarísku keðjunni.

Forstjóri Marks & Spencer, Stuart Rose varaði í gær við auknum kostnaði á smásölumarkaði í Bretlandi. Líklega eru bestu fréttirnar þær að markaðshlutdeild Marks & Spencer í matvöru hefur aukist um 4,1% Matvaran virðist vera sterkasta vígi keðjunnar, ekki síst þar sem matvörugeirinn er ekki jafn viðkvæmur fyrir niðursveiflu í smásölu og fatnaður og skóbúnaður.