Hlutarbréf í bresku verslunarkeðjunni Sainsbury hækkuðu í gær í kjölfar fregna um að Marks & Spencer hyggist gera yfirtökutilboð í fyrirtækið í samstarfi við tvo fjárfestingarsjóði sem eru reknir af ríkisstjórn Katar. Um helgina var sagt frá því í Sunday Telegraph að forráðamenn Marks & Spencer hafi fundað með stjórnendum Delta Two sjóðsins um hugsanlegt samstarf, en sjóðurinn hefur að undanförnu byggt upp stöðu sína Sainsbury og ræður nú um einu prósenti í félaginu. Fréttirnar urðu til þess að hlutabréf fyrirtækisins hækkuðu um tvö prósent í gær. Þrálátur orðrómur um hugsanlega yfirtöku á Sainsbury undanfarin misseri hefur meðal annars orðið til þess að hlutabréf fyrirtækisins hafa hækkað um 26% það sem af er ári. Áhugi fjárfesta á Sainsbury er ekki síst til kominn vegna verðmætis fasteigna félagsins. Í janúarlok benti til að mynda breska verðbréfafyrirtækið Numis á að virði fasteigna Sainsbury væri jafnmikið og markaðsvirði hlutabréfa þess. Talið er að verðmæti fasteigna Sainsbury sé hátt í fimmtán milljarðar Bandaríkjadala og ef að rekstur þess væri sameinaður við Marks & Spencer yrði hið sameinaða fyrirtæki með ellefu hundruð verslanir á Bretlandi á sínum snærum.

Hamad bin Jasim bin Jaber al-Thani, utanríkisráðherra Katar og framkvæmdastjóri fjárfestingarsjóðs ríkisins - Qatar Investment Authority, staðfestir áhugann á Sainsbury. Talið er að sjóðurinn hafi fjörtíu milljarða dala fjárfestingargetu og er honum ætlað taka stöður á erlendum mörkuðum með það að markmiði að tryggja ríkisstjórn landsins fleiri tekjustoðir en hagkerfi Katar byggist aðallega á útflutningi á olíu og gasi. Stjórnendur sjóðsins hafa sýnt fjárfestingum á Bretlandseyjum áhuga að undanförnu og talið er að hugsanlegt samstarf hans við Marks & Spencer um kaup á Sainsbury muni felast í fjármögnun auk þess sem að hann myndi eignast fasteignir keðjunnar. Marks & Spencer myndi þá taka yfir verslunarrekstur keðjunnar. En þrátt fyrir að sérfræðingar sjái flöt á samstarfi Marks & Spencer og katarska fjárfestingarsjóðsins segir Hamad að fjárfesting hans í Sainsbury byggist á eigin forsendum stjórnanda hans. Haft er eftir honum að sjóðurinn fjárfesti til lengri tíma og það sé trú aðstandenda hans að Sainsbury sé gott fyrirtæki, en hinsvegar hafi ekki verið tekin ákvörðun um hvort að áframhald verði á fjárfestingu í því.

En fleiri sýna keðjunni áhuga. Í febrúarbyrjun lýstu nokkrir stórir fjárfestingarsjóðir, þeirra á meðal Blackstone, Kohlber Kravis Roberts & Co og CVC Capital Partners, því yfir að þeir myndu hugsanlega gera tilboð í verslunarkeðjuna. Í umfjöllun dagblaðsins International Herald Tribune kemur fram að gangi áform fjárfestingarsjóðanna eftir yrði um að ræða stærstu skuldsettu yfirtökuna í sögu Evrópu. Íslenskir fjárfestar hafa einnig sýnt keðjunni áhuga en komið hefur fram í Viðskiptablaðinu að Baugur hafi tekið stöðu í félaginu.