Pamela Coffey hefur varið allri sinni starfsævi í að þjálfa fólk, svo það geti náð framúrskarandi árangri í starfi. Mestum tíma hefur hún varið innan stjórnsýslunnar, en hún starfaði meðal annars fyrir Federal Housing Finance Agency í Bandaríkjunum. Um aldamótin fór hún að leggja áherslu á markþjálfun. Nýlega sagði hún svo upp störfum til þess að einbeita sér að fullum krafti að þeim erindum. Hún hefur nú sett eigið ráðgjafafyrirtæki á fót og verður með erindi á Markþjálfunardeginum, sem haldinn er á Hilton Reykjavík Nordica í dag.

Áhersla á leiðtogahæfni

Pam segir áhersluna vera lagða á leiðtogahæfni.

„Ég hef unnið með ýmsum fyrirtækjum og stofnunum. Markmiðið er alltaf að leggja áherslu á leiðtogahæfni. Ég vil sjá fólk verða bestu útgáfuna af sjálfu sér. Ég vil sjá fólk verða skilvirkt.“

Hún segir þessa þróun þurfa að koma að innan, ekki sé hægt að þröngva þessu upp á fólk.

„Það verður að vinna með einstaklingum, þeir verða að vera opnir fyrir því að ná framförum. Þá þarf oft að kafa að rót vandans og skilja þarfir og langanir fólks.“

Oft á tíðum sér fólk ekki skóginn fyrir trjánum. Pam telur því mikilvægt að hjálpa fólki að fá yfirsýn. Markþjálfunin á að stuðla að því að fólk geti greint hvað það er sem heldur því frá því að ná árangri. Auk þess á fólk það til að vita ekki hvað það vill eða það er búið að sætta sig við ástandið sem það er í.

„Eitt sem við fáum fólk gjarnan til þess að gera, er að skrifa niður helstu þætti lífs þeirra. Fólk þarf svo að gefa þessum þáttum einkunn frá 1 upp í 10. Ef fólk gefur til að mynda starfinu sínu 7 í einkunn, þá þarf að greina hvað það er sem það vill bæta.“

Pam segir það vera gífurlega mikilvægt að horfa á heildina. Allt er tengt og því þarf líkami og sál í þeim skilningi að vera í góðu jafnvægi. Ef það eru vandamál í fjölskyldulífinu getur það til að mynda haft áhrif á starfið og öfugt.

„Hlutverk markþjálfans er því að styðja fólk í gegnum þessi breytingaferli með virkri þjálfun. Ferlið felst því í því að ögra, greina, skilja og framkvæma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .