Tveir dómarar Hæstaréttar, Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson, staðfestu gaæsluvarðhald yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni en Jón Steinar Gunnlaugsson lagðist gegn gæsluvarðhaldi í sératkvæði.

Gæsluvarðhald yfir Sigurjóni, sem úrskurðaður var í varðhald 25. janúar í Héraðsdómi, var staðfest í Hæstarétti í dag. Yfirheyrslur yfir honum hafa farið fram í allan dag. Meðal þeirra sem yfirheyrðir hafa verið í dag eru starfsmenn Landsbankans í Lúxemborg. Í heildina hafa um 40 manns verið yfirheyrðir.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, sagðist ekki vera búinn að fá niðurstöðu Hæstaréttar í hendur þegar Viðskiptablaðið náði tali af honum. "Það er svolítið sérkennilegt að vera ekki búinn að fá niðurstöðuna í hendurnar, áður en um hana er fjallað í fjölmiðlum, en þannig er það bara. Ég hef því ekki haft tök á því að kynna mér á hvaða forsendum þessi niðurstaða Hæstaréttar byggir, né heldur hvernig sérálit Jóns Steinars er rökstutt," sagði Sigurður G.