*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Fólk 21. október 2021 11:39

Markús til Alfa Framtaks

Markús Hörður er nýr fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtaki en fyrirtækið vinnur nú að söfnun nýs sjóðs Umbreyting II.

Ritstjórn
Markús hefur víðtæka reynslu af fjármálamarkaði
Aðsend mynd

Markús hefur víðtæka reynslu á fjármálamarkaði, en undanfarin ár hefur hann gengt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestinga hjá TM. Ásgeir Baldurs, fyrrum forstjóri VÍS, mun taka við starfi Markúsar. Fyrir tíma sinn hjá TM vann hann hjá fjárfestingarfélaginu Stoðum og Landsbankanum. Markús hefur einnig gengt fjölmörgum stjórnarstörfum á undanförnum árum. Markús er með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Eftir farsæl þrettán ár í starfi við stýringu fjárfestinga TM verður spennandi að takast á við nýjar áskoranir með Alfa Framtak. Félagið hefur náð góðum árangri með Umbreytingu I og mun ég leggja mitt af mörkum við að ná sem bestum árangri í næsta sjóð fyrir þá sem treysta Alfa Framtaki fyrir sínu fjármagni." segir Markús Hörður Árnason.

Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks, segir það feng að fá Markús til liðs við félagið. „Það er fengur fyrir Alfa Framtak að fá Markús til liðs við okkur. Framundan eru stór verkefni, sem fela í sér að efla þau fyrirtæki sem við höfum nú þegar fjárfest í og að koma nýjum framtakssjóði úr höfn. Markús býr yfir þekkingu og reynslu sem mun reynast dýrmæt á þeirri vegferð sem við erum á."

Vinna að söfnun nýs sjóðs

Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða með áherslu á framtaksfjárfestingar. Fyrirtækið rekur sjóðinn Umbreyting I slhf. og vinnur nú að söfnun nýs sjóðs Umbreyting II slhf. Hingað til hafa sjóðir félagsins fjárfest í sex verkefnum þ.e. - Nox Health, Borgarplast, Grafa og Grjót, Greiðslumiðlun Íslands, Málmsteypa Þorgríms Jónssonar og Nordic Visitor.