Orkustjórnunarfyrirtækið Marorka flutti í nýtt húsnæði á dögunum. Fyrirtækið hafði verið til húsa í Borgartúni 20, en er nú í Borgartúni 26. Í tengslum við flutningana gaf fyrirtækið Fjölsmiðjunni, vinnusetri fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára, ýmsan tölvubúnað.

„Marorka hafði ekki flutt sig um set frá því fyrirtækið var stofnað árið 2002 og hóf starfsemi í skrifstofum VSÓ í Borgartúni 20. Á þessum 13 árum hefur Marorka margfaldast að stærð og starfsmannafjölda og árið 2014 markaði söguleg tímamót í vexti fyrirtækisins, sala náði milljarði íslenskra króna. Stefnt er að áframhaldandi hröðum vexti á þessu ári.

Samhliða flutningunum var ráðist í endurnýjun á hluta tölvubúnaðar fyrirtækisins og í kjölfarið stóðu út af borðinu um það bil tveir rúmmetrar af tölvubúnaði og -íhlutum. Í ljósi umhverfisstefnu fyrirtækisins lá beinast við að koma tækjunum fyrir þar sem þau héldu áfram að nýtast vel og því var Fjölsmiðjunni í Kópavogi færður tækjabúnaðurinn að gjöf,“ segir í tilkynningu frá Marorku.