Tæknifyrirtækið Marorka, sem sérhæfir sig í orkustjórnun í sjávarútvegi og flutningum, hefur á síðastliðnum mánuðum undirritað samninga um uppsetningu og umsjón hugbúnaðar fyrirtækisins við nokkur af stærstu skipafélögum heims. Greint er frá málinu í Fréttablaðinu.

Þar kemur fram að á síðustu vikum hafi fyrirtækið samið við tvö stór skipafélög. Annars vegar megi þar nefna danska félagið Nordic Tankers sem starfrækir 66 olíuflutningaskip og hins vegar Abu Dhabi National Tanker Co/National Gas Shipping Company (ADNATC/NGSCO), sem á og gerir út flota olíu- og gasflutningaskipa.

Segir að orkustjórnunarbúnaður Marorku sé því í dag um borð í mörg hundruð skipum, sem mörg hver séu tugfalt stærri en flaggskip íslenska kaupskipaflotans. Í heildina nær samstarf Marorku til 65 skipafélaga um allan heim.