Hátæknifyrirtækið Marorka og svissneska fyrirtækið Aquametro hafa ákveðið að gera með sér samstarfssamning um markaðssetningu á eldsneytisstjórnunarkerfi fyrir skip að því er kemur fram í tilkynningu. Kerfið byggir á mælitækni þróaðri og framleiddri af Aquametro og orkustjórnunarkerfi framleiddu af Marorku.

Eldsneytisstjórnunarkerfið sem um ræðir er staðlað kerfi sem hentar öllum tegundum skipa sem ganga fyrir svartolíu.

Í tilkynningu kemur fram að með tilkomu þessa samnings opnast ný og spennandi markaðssvæði fyrir Marorku sem í dag starfar í þremur löndum ? á Íslandi, í Noregi og Danmörku. Hingað til hefur fyrirtækið einbeitt sér að markaðssetningu orkustjórnunarkerfa til skipaútgerða við Norður-Atlantshaf og eru margar helstu skipaútgerðum heims meðal viðskiptavina fyrirtækisins. Samstarfið við Aquametro opnar aftur á móti leið fyrir Marorku að skipasmíðastöðvum í Asíu. Jafnframt mun Aquametro markaðsetja allar kerfislausnir sínar fyrir skip ásamt hugbúnaði frá Marorku .

Aquametro er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu flæðimæla og orkumælingakerfa. Höfuðstöðvar Aquametro eru í Sviss en fyrirtækið er m.a. með sterka markaðsstöðu í flæðimælum í skipasmíðastöðvum í Suðaustur-Asíu.

Dr. Jón Ágúst Þorsteinsson framkvæmdastjóri Marorku og Fritz Hauff forstjóri Aquametro skrifa undir samstarfsamninginn í dag föstudaginn 24. ágúst klukkan 15 í höfuðstöðvum Marorku á 3. hæð við Borgartún 20 í Reykjavík.