Marorka hefur gert samning við norska fyrirtækið Kongsberg sem hannar og selur stjórnkerfi í skip og að sögn Jóns Ágústs Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Marorku, er unnið að fleiri slíkum samningum.

Marorka selur orkustjórnunarkerfi og er 10 ára gamalt fyrirtæki. Að sögn Jóns Ágústs styður þessi sala við þau áform að efla sölu og markaðsstarf félagsins en áætlanir gera ráð fyrir að talsverður vöxtur verði hjá félaginu á næstu árum. Til þessa hefur félagið fyrst og fremst vaxið með innri vexti en að sögn Jóns Ágústs er horft til þess að það geti vaxið með ytri vexti frá og með næsta ári.

Velta Marorku á þessu ári er áætluð 350 til 400 milljónir króna en stefnt er að ná eins milljarðs króna veltu fyrir árslok 2011. Stuðningur AVS, Tækniþróunarsjóðs og Nýsköpunarsjóðs sem á 18,5% hlut í Marorku hefur verið ómetanlegur að sögn Jóns Ágústs. Án stuðnings þessara aðila hefði Marorka trúlega ekki verið að skila þessum árangri, bestum árangri náum við í uppbyggingu sprotafyrirtækja þegar allir leggjast á eitt – starfsmenn, eigendur, samkeppnissjóðir og svo auðvitað viðskiptavinir sem oft hafa þurft að sýna Marorku einstaka þolinmæði. Einstaklega gott þróunarsamstarf við Eimskip hefur hjálpað okkur gríðarlega mikið segir Jón Ágúst.