Ársfjórðungsuppgjör bandarísku hótelkeðjunnar Marriott, sem stendur nú að byggingu hótels við Reykjavíkurhöfn, sýndi meira tap en búist var við en síðast var tap á einum ársfjórðungi árið 2011 hjá félaginu.

Tapið nam 234 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar nærri 32 milljörðum íslenskra króna, á þriggja mánaða tímabili til 30. júní síðastliðinn. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður tímabilsins 232 milljónum dala.

Tekjur félagsins féllu saman um 72,4%, niður í 1,46 milljarð dala, eða rétt tæplega 200 milljarða íslenskra króna á milli ársfjórðunganna, en mælt í tekjum á herbergi var lækkunin 84,4%.

Félagið býst við að herbergjanýting muni smátt og smátt ná sér á strik á ný í heiminum þó það geti verið nokkur ár þangað til eftirspurn nái því sem var fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum.

„Þó viðskipti okkar hafa orðið fyrir gríðarlegum áhrifum vegna Covid 19, erum við að sjá merki um að eftirspurn sé að aukast á ný,“ hefur Reuters eftir yfirlýsingu Arne Sorenson forstjóra félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir tæplega tveimur mánuðum stefnir félagið nú að því að ljúka framkvæmdum á Marriott-Edition hótelinu á Austurbakka Reykjavíkurhafnar í lok árs, eftir tafir við uppbyggingu þess.