*

mánudagur, 13. júlí 2020
Erlent 2. júní 2020 10:11

Marriott opnar öll hótel í Kína á ný

Öll 350 hótel undir merkjum Marriott í Kína hafa opnað aftur. Forstjóri keðjunnar býst við hægum bata.

Ritstjórn
epa

Marriott hefur opnað öll 350 hótel undir merkjum keðjunnar í Kína á ný. Heimsfaraldurinn hefur haft meiri fjárhagsleg áhrif á hótelkeðjuna heldur en hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, og fjármálakrísan árið 2008 samanlagt, samkvæmt tilkynningu félagsins í síðustu viku. 

Arne Sorenson, forstjóri Marriott, sagði á ráðstefnu í gær, að því er BBC greinir frá, að herbergjanýting í Kína fór niður í 7% í lok janúar þegar fjöldi staðfestra smita náði hámarki þar í landi. 

Þó Kínverjar væru farnir ferðast á ný, þá býst Sorensen við því að það muni taka nokkur ár þar til herbergjanýting nái sama hlutfalli og fyrir útbreiðslu Covid veirunnar. Hann sagði einnig að eftirspurn í Bandaríkjunum væri að ná sér á ný en herbergjanýting þar er um 20% um þessar mundir. 

Marriott sem rekur um 30 smærri hótelkeðjur, þar á meðal Ritz-Carlton og St Regis, hefur framlengt tímabundin leyfi starfsmanna og fækkað vinnustundum þar til í október. Félagið gerir ráð fyrir frekari uppsögnum seinna í ár vegna væntinga um hægan bata af núverandi ástandi. 

Hlutabréfaverð Marriott hækkaði um 7,38% á mörkuðum í gær en bréfin höfðu lækkað um tæp 40% frá upphafi árs. Öll 255 hótel undir merkjum Hilton í Kína opnuðu á ný fyrir tveimur vikum síðan en fyrirtækið hafði lokað um 150 hótelum í febrúar vegna ástandsins. 

Stikkorð: Kína Hilton Kína Marriott kórónaveira