*

mánudagur, 1. júní 2020
Erlent 15. mars 2020 11:03

Marriott seinkar opnun hótela

Hlutabréfaverð í stærsta hótelkeðju heims hefur lækkað um þriðjung á mánuði. Opnun nýrra hótela kann að seinka.

Ritstjórn
Marriott hóteli í Boston var lokað í vikunni. Sótthreinsa á hótelið þar sem meirihluta veikinda vegna kórónuveirunnar í Boston komu upp í tengslum við ráðstefnu á hótelinu.
epa

Marriott International, stærsta hótelkeðja heims, finnur fyrir útbreiðslu kórónuvírusins líkt og önnur félög í ferðaþjónustu. Hlutabréfaverð í Marriott hefur lækkað um þriðjung síðastliðinn mánuð en markaðsvirði félagsins er nú um 31 milljarður dollara.

Á fundi með greinendum eftir síðasta uppgjör félagsins kom fram að ein afleiðing útbreiðslu veirunnar væri að opnun hótela kynni að seinka. Marriott vinnur að opnun fyrsta fimm stjörnu hótels höfuðborgarsvæðisins við hlið Hörpu, sem stefnt er að því að opna seint á þessu ári. Upphaflega stóð til að hótelið opnaði árið 2018. Félagið auglýsti nýlega eftir hótelstjóra og öðru lykilstarfsfólki hér á landi.

Arne Sorenson, forstjóri Marriott, sagði þó að líklega myndu þau hótel sem verða tilbúin á þessu ári opna á árinu. Lítið vit væri hins vegar í því að opna ný hótel í augnablikinu á svæðum þar sem fjöldi hótela væru lokuð eða svo gott sem tóm nú um stundir.

Nærri 1,4 milljónir hótelherbergja má finna undir merkjum Marriott um heim allan. Félagið hyggst bæta við sig hálfri milljón hótelherbergja til viðbótar á næstu árum.