Forrest Mars, sem byggði upp Mars súkkulaðiveldið, taldi neytendur engu skipta hver framleiddi súkkulaðið þeirra svo lengi sem þeir væru ánægðir með bragðið. Íhaldssemin og athyglisfælnin hefur stundum kostað Mars. Frægt var að fyrirtækið hafnaði Stephen Spielberg um leyfi til að nota M&M í stórmyndinni ET á 9. áratugnum. Þess í stað var notast við Reese’s Pieces frá aðalkeppinautunum Hershey, en sala Reese’s Pieces margfaldaðist eftir útgáfu myndarinnar.

Síðustu ár hefur Mars dregið úr þeirri leynd sem umlukið hefur starfsemi þess. Sífellt fleiri neytendur vilja vera fullvissir um að vörurnar sem þeir kaupa séu umhverfisvænar og framleiddar af samfélagslegri ábyrgð, þannig að ekki sé níðst á neinum í framleiðsluferlinu. Þá leggja yngri kynslóðir meiri áherslu en eldri kynslóðir á að vinna þeirra geri gagn umfram það að fá sem hæst laun. Því hefur Mars byrjað að opna sig og vekja athygli á framleiðslunni og vinnustaðnum.

Sjá einnig: Leyndardómsfulla súkkulaðiveldið

Fyrirtækið á þó að vera í eigu Mars-fjölskyldunnar og standa utan við skráða hlutabréfamarkaði. „Okkar stefna er að vera óskráð fyrirtæki að eilífu,“ sagði Grant Reid, forstjóri Mars, í nýlegu viðtali. Með því að standa utan við hlutabréfamarkaði þurfi ekki að útskýra gengi fyrirtækisins fyrir fjárfestum og öðrum hluthöfum ársfjórðungslega. Horfa eigi lengra fram í tímann og taka ákvarðanir sem skili sér til framtíðar þó að það þýði hugsanlega lægri arð eða hagnað til skamms tíma.

Tvöfalda á umsvifin á næstu tíu árum

Í dag veltir Mars 35 milljörðum dollara á ári. Fyrirtækið hefur sett sér það markmið að tvöfalda veltuna á næsta áratug í 70 milljarða dollara á ári. Ná á markmiðinu með kaupum á fyrirtækjum og að sækja fram á markaði tengda gæludýrum og hollari matvælum en sælgæti. Í dag er meirihluti af veltu fyrirtækisins tilkominn vegna sölu tengdri gæludýrum. Síðustu stóru fyrirtækjakaup Mars voru á keðju af dýraspítölum undir nafninu VCA árið 2017 fyrir 9,1 milljarð dollara.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .