Marta Guðjónsdóttir ætlar ekki að gefa kost á sér í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en hún greinir frá þessu á Facebook síðu sinni. Hún segist þakklát fyrir að fólk hafi hugsað til sín í tengslum við forystusætið.

Marta segist þó enn hafa einlægan áhuga á að starfa áfram að borgarmálum og skipa eitt af efstu sætum listans. „Mér finnst mikilvægt að sá einstaklingur sem verður valinn oddviti verði öflugur talsmaður sjálfstæðisstefnunnar og að listinn verði samhentur,“ segir Marta í færslunni.

Halldór Halldórsson núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur sagt að hann muni ekki gefa kost á sér en auk þess hefur Páll Magnússon tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér en þrálátur orðrómur hafði verið um mögulegt framboð hans.

Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi hefur lýst því yfir að hún muni gefa kost á sér en ýmsir aðrir hafa verið orðaðir við framboð í leiðtogaprófkjörinu sem fram fer 27. janúar næstkomandi. Þeirra á meðal eru borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon og Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrum forseti Alþingis. Þá hafa þónokkur úr atvinnulífinu verið nefnd sem mögulegir frambjóðendur en þar má nefna Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjórs hjá Isavia, Eyþór Arnalds, viðskiptamann og Ásdísi Höllu Bragadóttur, framkvæmdastjóra Klíníkurinnar.

Loks hafa tveir aðstoðarmenn einnig verið nefnd sem oddvitaefni en það eru þau Svanhildur Hólm aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar og Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.