Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og varaborgarfulltrúi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í þriðja sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Marta hefur víðtæka reynslu af borgarmálum og hefur sl. þrjú ár stýrt Verði stærstu samtökum Sjálfstæðisflokksins fyrst kvenna.

Hún hefur verið varaborgarfulltrúi frá 2006, en hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurborg frá 2002. Hún er formaður  Mannréttindaráðs Reykjavíkur og Hverfisráðs Kjalarness. Auk þess situr Marta í Menntaráði Reykjavíkur. Ennfremur sat hún í Íþrótta- og  tómstundaráði 2006, Menningar- og ferðamálaráði 2007, Innkauparáði 2006- 2007 og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Reykjavíkurborgar2008.

Í tilkynningu segir að Marta vill bregðast við vaxandi atvinnuleysi með því að Reykjavíkurborg skapi góð skilyrði fyrir aukinni atvinnuuppbyggingu í borginni. Hún leggur áherslu á að borgaryfirvöld standi áfram vörð um hag heimilanna með því að viðhalda grunnþjónustunni við borgarbúa og hækka ekki útsvar eða gjaldskrár á þessum erfiðu tímum. Hún leggur einnig áherslu á stóraukna samvinnu og samhæfingu grunnskóla, tónlistarskóla og þeirra félaga sem sinna íþróttaiðkun barna og telur að Reykjavíkurborg eigi að varða leiðina að fjölbreyttum og gróskumiklum  grunnskóla á Íslandi segir í tilkynningu.

Marta er gift Kjartani Gunnari Kjartanssyni, blaðamanni og eiga þau tvö börn.