*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Fólk 13. júlí 2020 14:25

Marta ráðin framkvæmdastjóri ABÍ

Marta Jónsdóttir tekur við af Jóni Ólafssyni sem framkvæmdastjóri Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi.

Ritstjórn
Marta Jónsdóttir, nýráðin framkvæmdastjóri Alþjóðlegra bifreiðatrygginga
Aðsend mynd

Marta Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Alþjóðlegra bifreiðatrygginga á Íslandi sf. (ABÍ sf.) en félagið, sem hefur verið starfandi frá árinu 1971, er í eigu þeirra fjögurra tryggingafélaga sem bjóða upp á ökutækjatryggingar á Íslandi. 

Marta tekur við af Jóni Ólafssyni sem lætur nú af störfum sökum aldurs eftir farsælt starf en hann hefur verið framkvæmdastjóri félagsins frá árinu 2006.  

Marta starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., en áður starfaði hún sem yfirlögfræðingur Umferðarstofu, sem deildarstjóri hjá Samgöngustofu og sem sérfræðingur hjá Innanríkisráðuneytinu en þar annaðist hún umferðar- og vegamál. Marta hefur setið í fjölda stjórna og nefnda, á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. 

Marta er lögfræðingur að mennt og hefur auk þess aflað sér menntunar í samningatækni við Harvard Business School.