Marta Margrét Rúnarsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin lögfræðingur fjármálaþjónustu á sviði innri markaðar hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel.

Marta starfaði frá 2008 sem fulltrúi og síðar verkefnastjóri á fyrirtækjasviði LOGOS lögmannsþjónustu. Frá ársbyrjun 2017 starfaði hún sem lögfræðingur á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þar sem hún fór m.a. með málefni sjóðamarkaðar. Hún sat í stjórn Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá vori 2018.

Auk mag.jur gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands og réttinda til málflutnings fyrir héraðsdómi, er Marta með MA gráðu í Evrópurétti, með áherslu á fjármálaþjónustu, frá lagadeild Kings College í London.

Samhliða störfum sínum hefur Marta gengt ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum, m.a. setið í laganefnd Lögmannafélags Íslands, verið varaformaður stjórnar Bókaútgáfunnar CODEX og formaður Félags kvenna í lögmennsku, auk þess að hafa sinnt stundakennslu í lögfræði. Eiginmaður hennar er Daníel Pálmason, lögmaður, og eiga þau eina dóttur.