Svissneska verktakafyrirtækið Marti Holdings AG, sem keypti  verktakahluta Íslenskra Aðalverktaka (ÍAV) í mars,  gerði það í gegnum íslenskt dótturfélag sitt, Marti Construction Iceland. Félagið er ekki með skrifstofu hérlendis heldur er skráð til heimilis í höfðustöðvum endurskoðunarfyrirtækisins PWC í Skógarhlíð. Það er því svokallað skúffufyrirtæki.

Fyrr í dag var sagt frá því á vb.is að fyrrum eigendur ÍAV sögðu sig úr stjórn IP verktaka viku áður en félagið keypti verktakahluta ÍAV af Arion banka. Þeir settust síðan aftur í stjórn félagsins tæpum þremur mánuðum síðar og keyptu um leið helmingshlut í hinu nýja ÍAV á tæpar 400 milljónir króna.

Sömu menn, þeir Gunnar Sverrisson og Karl Þráinsson, forstjórar ÍAV, höfðu áður þverneitað því við fjölmiðla að þeir stæðu á bakvið kaup IP verktaka á verktakahluta ÍAV.

Marti lánaði einhverjum 655 milljónir króna

Þegar Arion banki seldi IP verktökum, þá félagi í eigu Marti á Íslandi, verktakahluta ÍAV í mars var kaupverðið sagt trúnaðarmál að kröfu kaupendanna. Í ársreikningi Marti á Íslandi fyrir árið 2009 má þó sjá miklar breytingar á efnahagsreikningi þess. Í árslok 2008 átti félagið 50 milljónir króna og skuldaði 41 milljón króna. Ári síðar voru eignir Marti á Íslandi orðnar 967 milljóna króna virði og skludir þess höfðu vaxið í 941 milljón króna.

Helsta ástæðan fyrir þessari miklu skuldaaukningu var skammtímalán sem félagið tók upp á 857 milljónir króna. Ekki er tilgreint hver lánveitandinn er. Helsta eign Marti á Íslandi var á sama tíma 655 milljóna króna skammtímalán sem það hafði veitt einhverjum. Ekki er sagt frá því í ársreikningum hver fékk lánið.

Hafa ekki skilað ársreikningi frá einkavæðingu ÍAV

Íslenskir aðalverktakar ehf., sem hétu áður IP verktakar, hafa ekki skilað ársreikningi og því er fjárhagsstaða félagsins ekki opinber. Gamla ÍAV, sem varð gjaldþrota og skildi Arion banka eftir með tugmilljarða króna skuldir, skilaði aldrei ársreikningi eftir að félagið fór úr eigu íslenska ríkisins snemma árs 2003.

Hluti þess hóps sem eignaðist fyrirtækið í kjölfar einkavæðingarinnar hefur nú eignast helmingshlut í IP verktökum. Þar er um að ræða þá Gunnar Sverrisson og Karl Þráinsson, forstjóra ÍAV.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .