Martin Shkreli, maðurinn sem komst í heimspressuna fyrir að hækka verð á HIV-lyfinu Daraprim um einhver 5000% í september síðastliðinn hefur nú keypt ‘Once Upon a Time in Shaolin’, ofursjaldgæfu plötu rappgengisins Wu-Tang Clan.

Platan var aðeins gefin út í einu eintaki , sem útskýrir verðið - heilar 2 milljónir bandaríkjadala. Verðið nemur rúmlega 258 milljónum íslenskra króna.

Shkreli var boðið að hlusta á plötuna áður en hann staðfesti kaupin - en hann sagðist ekki hafa tíma, og lét starfsmann sinn um að staðfesta gæði plötunnar fyrir sig.

Fjölmargir hafa gagnrýnt Shkreli fyrir verðhækkunina fyrrnefndu, en honum er að sögn nokkuð sama um hvað fólki finnst um hann. Hillary Clinton og Donald Trump hafa bæði lýst yfir vanþóknun sinni á gjörðum hans.

Raunar sagði Shkreli í viðtali við Forbes að hann sæi eftir því að hafa ekki hækkað verð Daraprim enn meira.