Sportbílaframleiðandinn Maserati mun innkalla 28.235 bíla af gerðunum Quattroporte og Ghibli vegna galla í gólfmottu bílstjóramegin. Getur mottan losnað og orðið til þess að eldsneytisgjöf bílsins festist niður. Þetta getur svo leitt til þess að bílstjóri missir stjórn á hraða bílsins og hugsanlega á bílnum sjálfum.

Í frétt CNBC segir að um sé að ræða alla bíla þessara tegunda sem framleiddir voru á tímabilinu febrúar 2013 til nóvember 2015. Fiat-Chrysler er móðurfélag Maserati og munu eigendur bílanna fá nýja gólfmottu sér að kostnaðarlausu.