Matvælastofnun (MAST) hefur takmarkað starfsemi Brúneggja ehf. að Teigi og Silfurhöll með þeim hætti að allur frekari flutningur varphæna í framleiðsluhúsin er bannaður þar til loftgæði hafa verið bætt.

„Mælingar stofnunarinnar á ammóníaki hafa sýnt viðvarandi gildi yfir leyfilegu hámarki í húsunum og þar með að úrbætur eru ekki fullnægjandi,“ segir í tilkynningu frá MAST.

Samhliða hefur Matvælastofnun lagt dagsektir á Brúnegg þar til að bætt hefur verið úr loftgæðunum á Teigi og Silfurhöll og tryggt verði að magn ammóníaks fari ekki yfir skilgreind hámarksgildi á meðan varptíma stendur.