MasterCard gekk frá kaupum á danska fjártæknifyrirtækinu Aiia í síðasta mánuði, en Aiia hefur sérhæft sig í opnum bankalausnum sem veita beintengingu að gögnum banka í gegnum eina gátt og gerir viðskiptavinum þannig kleift að þróa nýjar stafrænar lausnir á þeirra grunni.

Guðmundur Hreiðarsson er einn þriggja stofnenda Aiia en hann segir Aiia og MasterCard hafa smollið saman vegna sterkra samlegðaráhrifa og sameiginlegra gilda.

„MasterCard hefur horft til svokallaðrar „multi-rail" strategíu, það er að bjóða margar leiðir til þess að framkvæma færslur, ekki bara með korti, og margar leiðir til þess að tengjast gögnum. Við erum lítið fyrirtæki í Danmörku sem hefur byggt upp mjög sterkan tæknilegan grundvöll til þess að gera það vel og erum með áform um að skala okkur út, að minnsta kosti í Evrópu. Við vorum að leita okkur að samstarfsaðilum í vextinum og kynnumst MasterCard, sem er ótrúlega vel tengt og til staðar um allan heim, og við búum yfir tækni sem þau vantar þannig að það eru gríðarlega sterk samlegðaráhrif á milli okkar. En það sem að gerði útslagið í því að við smullum saman við MasterCard er að það byggir á þessum sömu gildum og Aiia um gæði, siðferðislega notkun gagna, öryggismál, reglufylgni og samstarf við bankageirann. Í mínum huga er það mikilvægt að við stöndum áfram vörð um þessi gildi í vexti fyrirtækisins og þegar það fer í annarra hendur," segir Guðmundur.

Kaupverð Aiia er trúnaðarmál, en leiða má líkur að því að salan hafi gefið vel í aðra hönd stofnenda félagsins. Þeir láta það þó ekki trufla einbeitingu sína.

„Þegar við vorum búnir að skrifa undir kaupsamninginn sátum við og skáluðum í kampavíni, en það eina sem við gátum talað um voru næstu skref, hvaða áskoranir við ætluðum að leysa á mánudeginum. Við erum því jarðbundnir að því leyti að við höldum bara áfram, en núna getum við virkilega farið að láta það sem við höfum verið að vinna að, rætast. Nú höfum við kraftinn til þess að sækja út fyrir Skandinavíu og byggja upp greiðslulausnir, en þar sjáum við stærstu tækifærin til vaxtar og munum vinna mjög ötullega að því með MasterCard."

Nánar er rætt við Guðmund í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Veitingastaðurinn Brút og barinn Óskabarn þjóðarinnar opna í fornfrægu húsi í miðborginni um helgina.
  • Fjallað er um fjárfestingar Novator í námuvinnslu í Afríku.
  • Vitrolabs, félag Ingvars Helgasonar, sækir milljarða í nýtt hlutafé en félagið ræktar leður úr frumum á rannsóknarstofum.
  • Rætt er við Höllu Hrund Logadóttur, nýjan orkustjóra, um orkumál í víðu samgengi.
  • Rætt er við seðlabankastjóra um verstu martröð seðlabanka.
  • Ný lögmannsstofa með alþjóðlega tengingu tók til starfa síðustu mánaðamót og er rætt við framkvæmdastjóra hennar í blaðinu.
  • Nýr sölustjóri Play ræðir tuttugu ára feril sinní flugbransanum og hvað kom til að hún flutti til Íslands fyrir átta árum.
  • Týr er á sínum stað og fjallar um stjórnarmyndunarviðræðurnar auk Hugins og munins.
  • Þá fjallar Óðinn um vexti, fasteignamarkaðinn og aðgerðir Seðlabankans.