Kortafyrirtækið Mastercard hagnaðist um 2 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 248,5 milljörðum íslenskra króna á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Er það aukning um 133% frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 900 milljónum dala.

Tekjurnar jukust á sama tíma um nærri 16%, úr 3,8 milljörðum dala í 4,4 milljarða, meðan rekstrarkostnaður félagsins dróst saman um 22%, úr 2,6 milljörðum dala í 2 milljarða. Þar með jókst rekstrarhagnaðurinn um 94% milli ára, úr 1,2 milljarði dala í 2,4 milljarða dala og framlegðin af rekstrinum fór úr 32,4% í 54,4%.

Þannig virðist neysla Bandaríkjamanna yfir hátíðirnar hafa farið fram úr væntingum greinenda, og jókst kortanotkunina um 19% frá sama tíma fyrir ári, eða í 29,38 milljarða færslna. Ef horft er á heildarupphæð kortanotkunarinnar jókst hún um 12% í dölum talið, eða í 1,73 billjarða (þúsund milljarða) Bandaríkjadali.

Þar með nam heildarhagnaður Mastercard árið 2019 8,1 milljarði Bandaríkjadala, sem er 39% aukning frá 5,9 milljarða hagnaði kortafyrirtækisins árið 2018. Jukust árstekjur þess um 13% milli ára, úr 15 milljörðum dala í 16,9 milljarða dali, en rekstrarkostnaðurinn dróst saman um 6%, úr 7,7 milljörðum dala í 7,2%, svo framlegðin hækkaði úr 48,7% í 57,2%.