*

laugardagur, 24. ágúst 2019
Innlent 29. júní 2017 15:56

Matarkarfan lækkar hressilega

Greiningardeild Arion Banka segir að áhrif Costco séu farin að koma fram í verðlagi.

Ritstjórn
Gígja Einarsdóttir

Greiningardeild Arion banka segir að áhrif Costco á smásölumarkaði sjáist í verðbólgu tölum fyrir júnímánuð. Í markaðspunktum deildarinnar er bent á að matar- og drykkjarvörur hafi lækkað um 1,2% á milli mánaða. Matarkarfan hefur jafnframt lækkað um 3,5% síðustu 12 mánuði.

Segir greiningardeildin að lækkunin hafi verið umfram væntingar. Líklega séu óbein áhrif Costco á ferðinni en verðlækkanirnar gætu í raun verið meiri ef tekið væri tillit til beinna áhrifa Costco í verðmælingum. Verð á mat og drykk hefur farið stöðugt lækkandi frá ársbyrjun og hefur styrking krónunnar klárlega þar sitt að segja. 

Samkvæmt greiningardeildinni er lítill verðbólga fram undan. Innlendar vörur og þjónusta hafa hækkað sáralítið undanfarna 12 mánuði, en helst hefur það verið opinber þjónusta sem hefur dregið vagninn. Það sé því varla hægt að tala um innlendan verðbólguþrýsting eins og staðan er núna. Krónan hefur hingað til hjálpað við að halda aftur af verðbólgu en hversu lengi hún getur létt undir með innlendum fyrirtækjum er erfitt að segja til um og hefur hún verið að gefa eftir undanfarnar vikur. 

Fjölmargir kjarasamningar verða endurnýjaðir í ár og gæti aukinn launakostnaður innlendra fyrirtækja skilað sér út í verðlagið þótt áhrifin af launahækkunum í maí hafi verið minniháttar, a.m.k. í bili. Segir deildin að áhugavert verði að sjá hvernig þessir liðir muni þróast á næstu mánuðum en telur líklegt að verðbólgan taki ekki við sér í nánustu framtíð.