Hlutabréf í bandaríska matarpakkafyrirtækinu Blue Apron – sem helst mætti líkja við Eldum Rétt hér á landi – höfðu rúmlega tífaldast í verði frá því á mánudag við opnun markaða vestanhafs, en hafa síðan lækkað um tæpan helming.

Blue Apron sendir heim til viðskiptavina sinna matarpakka með öllu sem til þarf til að matreiða tiltekinn rétt, auk leiðbeininga. Vonir fjárfesta virðast standa til að sala muni aukast verulega nú þegar flestir forðast að fara út á meðal fólks, og margir kaupa miklar birgðir af mat, sem í einhverjum tilfellum hefur leitt til tómra búðarhilla.

Félagið var skráð á markað sumarið 2017 og hóf göngu sína þar í 140 dölum á hlut, en hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan. hlutabréfaverðið hefur verið að gefa eftir allar götur síðan. Í árslok 2017 var það komið í tæpa 60 dali, og í upphafi þessa árs hafði það fallið í aðeins rúma 6 dali, og var komið undir 3 í lok febrúar.

Í frétt Forbes um málið er félagið sagt hafa verið á nokkurskonar dauðavakt síðustu misseri, hafandi misst það markaðsforskot sem það eitt sinn naut, og tapað bæði peningum og viðskiptavinum statt og stöðugt lengi.

Eftir að hafa hafið vikuna í 2,25 dölum hefur verðið svo hækkað hratt í þessari viku, en það fór hæst í 18 dali í gær, og rauk í 25 dali við opnun markaða í dag. Þegar þetta er skrifað hefur það hinsvegar lækkað um fimmtung frá opnun og stendur í 12,5.

Á miðvikudag auglýsti fyrirtækið eftir bæði tímabundnum og varanlegum starfskrafti á Facebook, og sagði reynslu af sambærilegum störfum ekki skilyrði, en vísað var sérstaklega til Covid-19 faraldursins í færslunni.