Svokölluð þrívíddarprentun matvæla verður mögulega orðinn blákaldur veruleiki á flestum heimilum innan ekki svo margra ára.

Þau Hörður G. Kristinsson og Holly T. Kristinsson hjá Matís hafa fulla trú á því. Kostirnir eru meðal annars þeir að maturinn nýtist betur, þar á meðal fiskur. Minna fer í ruslið.

„Ungt fólk sem við höfum verið með kynningar fyrir áttar sig alveg á þessu,“ segir Holly. „Þetta snýst ekki síst um sjálfbærni.“

Afskurðurinn þart til dæmis ekki í ruslið þegar hægt að gera úr honum ljúffengan mat. Sömuleiðis verður hægt að nýta hráefnið áfram þótt hefðbundin matreiðsla misfarist.

„Þú getur verið með gott flak heima en eitthvað gerist í matreiðslunni, það fer kannski allt í sundur þegar þú ert að sjóða. Þá geturðu samt notað það í prentarann,“ segir hún.

Nýstárleg tækni

Matís hefur um nokkurt skeið haft í fórum sínumFoodini  þrívíddarprentara fyrir matvæli, og það tvo frekar en einn og var fyrsta rannsóknarfyrirtækið á Norðurlöndunum til að fá slíkt tæki. Matvælaprentunin er liður í verkefni sem nefnist Framtíðareldhúsið (FutureKitchen) og þar er unnið að þróun nýstárlegra aðferða og tækni fyrir eldhús framtíðarinnar og miðlun tækninnar til almennings.

Þau hafa einnig útbúið kynningarmyndbönd fyrir þrívíddargleraugu, með stuðningi frá EIT Food sjóðnum auk AVS og Tækniþróunarsjóðs. Myndböndin má sjá á vefnum FoodUnfolded.com og er hægt að hlaða inn í þrívíddargleraugu fyrir þá sem eiga slíkan búnað.

Eitt af myndböndunum tekur áhorfandann inn í íslenska fiskvinnslu og endar inni í matvælaprentaranum þar sem verið er að prenta með afskurði úr vinnslunni.

Myndböndin hafa verið sýnd víða, bæði hér á landi og í Evrópu, þar á meðal á ráðstefnum og sýningum tengdum sjávarútvegi. Matís var til dæmis með þrívíddargleraugun til sýnis og prófunar á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll í nýverið og á Vísindavöku Rannís.

„Vandamálið í sjávarútvegi er að neyslan hefur verið að minnka hjá ungu fólki. Við erum því að reyna með þessu að hjálpa þeim til þess að skilja greinina betur. Fæst þeirra hafa til dæmis komið inn í fiskvinnslu, en með þessu geta þau séð inn fyrir,“ segir Hörður.

Ljúffengur matur

Holly viðurkennir svo sem að til að byrja með hafi hún ekki verið sérlega spennt fyrir þrívíddarprentun á mat.

„En það eru til mismunandi tegundir af þrívíddarprenturum. Þessi gerð sem við notum er þannig að í hann má setja fersk matvæli. Það eru engin forunnin efni sett með og ungt fólk sem við höfum verið með kynningar fyrir áttar sig vel á möguleikunum.“

Þau segja vel hægt að matbúa fyrir prentarann fæðu sem smakkast afskaplega vel. Annað af tveimur sýndarveruleikamyndböndunum sýnir einmitt íslenskan kokk setja saman hráefnin af mikilli kostgæfni.

Þrívíddarprentarar fyrir matvæli eru að vísu harla dýrir sem stendur, kosta vel á fjórða þúsund evrur hvert tæki, eða nálægt hálfri milljón króna.

Þau benda hins vegar á að þetta sé eins og með örbylgjuofninn, hann hafi kostað um níu þúsund dali, eða vel yfir eina milljón króna þegar hann kom fyrst fram á sjónarsviðið. Verðið hafi farið ört lækkandi með aukinni eftirspurn.

„Prentarinn er þó ekki enn farinn að elda matinn, en það er verið að vinna í því,“ segir Hörður.