Matarsmiðja Matís opnaði fyrir um sjö árum síðan eða fljótlega eftir að Matís flutti í nýtt húsnæði á Vínlandsleið í Grafarholti.

„Matarsmiðjan er ekkert annað en aðstaða, með tækjum og búnaði, sem er matvælavinnsluhæf," segir Óli Þór Hilmarsson, sérfræðingur hjá Matís. „Fólk, sem hefur fengið hugmynd að vöru, getur komið hingað með sín hráefni og byrjað að vinna. Húsnæðið sem slíkt er ekki með starfsleyfi og því þarf fólk að sækja um það sjálft áður en það kemur, hvort sem það er til Matvælastofnunar eða Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Þetta er tilrauna- og vöruþróunareldhús, sem líka er nýtt til smá framleiðslu.

Þegar fyrirtækin, sem hefja sinn rekstur í Matarsmiðjunni, verða of stór þá þurfa þau að færa sig annað. Það er fjölmörg dæmi um þetta og má til dæmis nefna fyrirtækið Ástrík, sem framleiðir sælkerapoppkorn og rekið er af Ásthildi Björgvinsdóttur. Það fyrirtæki sprengdi þá aðstöðu sem við erum með utan af sér á einum mánuði og nú Ásthildur með framleiðslu annars staðar í borginni.

Síðan eru einnig dæmi um framleiðendur sem hafa verið hér í fjögur ár. Þá leigja þeir  hálfan eða heilan dag í Matarsmiðjunni til að framleiða sína vörur og fylla upp í pantanir. Mjög algengt er að svona lítil fyrirtæki komi hingað einu sinni til þrisvar í mánuði."

Sérfræðingar aðstoða

Óli Þór segir að þeir sem séu áhugasamir um að nýta sér aðstöðu matarsmiðjunnar geti hringt í Matís eða sent tölvupóst.

„Þegar við erum búin að fá upplýsingar um hvað viðkomandi hyggst framleiða þá skoðum við hvort við eigum rétta tækjabúnaðinn og hvort framleiðslumagnið henti húsnæðinu. Ef við sjáum að þetta gengur að þetta stemmir allt þá leigum við húsnæðið. Pöntunarkerfið hjá okkur er þannig að fyrstur kemur fyrstur fær. Við leigjum Matarsmiðjuna ekki í marga daga í senn heldur er fólki yfirleitt að leigja hálfan eða heilan dag.

Fólk sem kemur í Matarsmiðjuna getur líka keypt sér þjónustu sérfræðinga Matís.

„Sumir þurfa meiri aðstoð en aðrir," segir Óli Þór. "Hér getur fólk til dæmis fengið aðstoð frá næringarfræðingum við að útbúa innihaldslýsingu á vöru og mæla geymsluþol hennar."

Nánar er fjallað um málið í Sprotum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .