Hópur undir nafninu Gracipe varð hlutskarpastur í frumkvöðlakeppninni Gullegginu en úrslitin voru tilkynnt í gær. llugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Gulleggið 2014 við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík. Gracipe fær eina milljón króna auk ráðgjafar frá Marel í verðlaun. Alls tóku 697 aðilar þátt í keppninni.

Sigurtillagan gengur út á að mataruppskriftir settar fram á nýjan hátt með því að sameina hráefni, aðgerðir og skref í myndrænni framsetningu. Lausnin er aðgengileg á www.gracipe.com. Lausn Gracipe felur í sér að gjörbylta framsetningu á uppskriftum með vandaðri myndrænni framsetningu. Uppskriftin er krufin til mergjar það er; hráefni, aðgerðir og þau áhöld sem þarf til þess að elda eftir uppskriftinni. Öllum þessum hlutum er síðan komið fyrir á tímalínu á myndrænan hátt þar sem hver aðgerð er auðsjáanleg og skiljanleg.

2. sæti - Radiant Games

Radiant Games er framsækið sprotafyrirtæki sem mun nútímavæða menntun með því að þróa næstu kynslóð námsgagna. Námsgögnin, sem verða íþrótta- og tómstundaleikir fyrir spjaldtölvur, munu kenna börnum á fyrstu árum grunnskólans rökfræðilega hugsun og gildi forritunar. Markmið Radiant Games er að mæta þörfum upprennandi kynslóða með námsgögnum sem örva sköpunargleði og hvetja börn til að leysa vandamál á eigin spýtur.

Verðlaun: 300.000 kr. frá Landsbankanum, sérstök aukaverðlaun voru ráðgjöf frá Advel lögmönnum og spjaldtölva frá Nova.

3. sæti -  Solid Clouds

Solid Clouds þróar og hannar tölvuleikinn PROSPER. PROSPER er herkænskuleikur sem gerist í geimnum og er spilaður í rauntíma í sama heimi af þúsundum spilara í gegnum netvafra og tekur hver leikur sex mánuði. Leikmenn byrja með eina geimstöð á risastóru korti með 1,2 milljónir reita. Þeir keppast svo um að auka framleiðslugetu sína, til að geta byggt sem stærstan flota, sem er svo notaður til að leggja undir sig nálæga reiti eða gera árásir á aðra spilara. Leikmenn geta myndað bandalög sem berjast um yfirráð og endar leikurinn á því að eitt bandalag stendur uppi sem sigurvegari. PROSPER er fyrsti geimleikurinn af þessu tagi í þrívídd.

Verðlaun: 200.000 kr. frá Landsbankanum.

Auk þess hlaut undirfatafyrirtækið Mulier sérstök aukaverðlaun frá Íslandsstofu sem voru útflutningsstuðningur að andvirði 250 þúsund króna.