Matavörur eru mun dýrari í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Þetta er niðurstaða nýrrar verðkönnunar sem Alþýðusamband Íslands framkvæmdi síðastliðin desember og birt var í dag. Samkvæmt úttektinni var vöruverð í lágvöruverðsverslunum langhæst á Íslandi, en vörukarfan er 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki þar sem vöruverðið var lægst. Næst á eftir Íslandi er vöruverð hæst í Noregi en engu að síður er vörukarfan í Ósló 40% ódýrari en í Reykjavík.

Mikill verðmunur var á öllum vöruflokkum í könnuninni. Þannig kostar kílóið af brauðosti (25-30%) 1.411 krónur á Íslandi en 556 krónur í Helsinki. Þannig reyndist 152% verðmunur vera á kílóverði af brauðosti milli Reykjavíkur og Helsinki. Mikill verðmunur er einnig á kjötvörum en kíló af ungnautahakki kostar 1.598 krónur í Reykjavík en 946 krónur í Helsinki, sem gerir 69% verðmun á hæsta og lægsta verði. Verðmunurinn á grænmeti var sömuleiðis mikill en sem dæmi má nefna að 560% munur var á hæsta og lægsta kílóverði á gulrótum og 213% munur á hæsta og lægsta verði á kartöflum.

Verðkönnunin var framkvæmd í stórmörkuðum og lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna 5.- 9. desember síðastliðinn. Farið var í leiðandi matvörukeðjur á hverjum stað þar sem gera má heildarinnkaup til heimilisins. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en ein tegund af tiltekinni vöru var fáanleg í versluninni, var ávallt valinn ódýrasti kosturinn sem uppfyllti sett skilyrði.