Materia Invest, félag í eigu Magnúsar Ármann, Þorsteins M. Jónssonar og Kevin Stanford, skilaði 797,5 milljóna króna hagnaði á árinu 2010. Kemur fram í ársreikningi að hagnaðurinn er allur til kominn vegna vaxtagjalda og gengismunar. Árið 2009 var 4,6 milljarða króna tap á rekstri félagsins. Materia Invest átti fyrir hrunið 2008 töluvert af hlutabréfum í FL Group, en þau eru nú verðlaus.

Eignir félagsins eru í ársreikningi reiknaðar 193,1 milljón króna. Þar af er bifreiðaeign 27 milljónir króna og skammtímakröfur 166,1 milljón króna og hafa þessar tölur ekkert breyst milli ára. Skuldir eru hins vegar 24,3 milljarðar og eigið fé neikvætt um 24,1 milljarð króna. Stjórn félagsins leggur því ekki til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu.