Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Viðskiptablaðsins er Matfugl búinn að kaupa Síld og fisk. Eftir kaupin verður Matfugl mjög sterkt afl á íslenskum kjötmarkaði en fyrir rekur félagið Móa og Íslandsfugl sem fyrirtækið keypti í fyrra. Sameinað fyrirtæki Matfugls og Síldar og fisks fer langt með að slaga í Sláturfélag Suðurlands að stærð ef það verður ekki stærra.

Eggert Gíslason stjórnaformaður Mata, sem á Matfugl, vildi ekki staðfesta þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

KB banki á tvo þriðju hluta hlutafjár í Síld og fisk á móti Geirlaugu Þorvaldsdóttur Guðmundssonar stofnanda félagsins. Hlut KB banka áttu Brautarholtsfeðgar áður en eftir að veldi þeirra fór á höfuðið leysti KB banki til sín bréfin í janúar á síðasta ári. Árið 2003 var 107 milljóna króna tap á félaginu og taldi bankinn að best færi á því að ná betri tökum á rekstrinum áður en félagið yrði sett í sölu. Eftir hagræðingaraðgerðir á síðasta ári náðist 31 milljón króna hagnaður og sagði Björgvin Jón Bjarnason í viðtali við Viðskiptablaðið um miðjan mars síðastliðinn að eigendur fyrirtækisins væru að hugleiða að bjóða það til sölu á næstu vikum eða mánuðum. Nú er það komið í hendur annarra aðila.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.