Nýverið var stofnað fyrirtækið Matgæði ehf. með aðsetur á Blönduósi. Fyrirtækinu er ætlað að vera ráðgefandi á sviði vöruþróunar, rannsókna- og markaðsstarfs hjá fyrirtækjum í matvælaiðnaði. Hlutverk þess er að stuðla að þróun, frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Stofnendur eru Blönduóssbær, Sölufélag Austur-Húnvetninga, Rannsóknarþjónustan Sýni ehf., Mjólkursamlag Húnvetninga, Norðurós ehf., Húnakaup ehf. og Frumherji hf. - matvælasvið.

Fyrir utan ráðgjafaþjónustu er stefnt að því að Matgæði ehf. skipuleggi fræðslunámskeið og samstarf matvælafyrirtækja þar sem það á við. Ekki var talið vænlegt að koma upp eigin rannsóknastofu á svæðinu því slík framkvæmd þótti kostnaðarsöm og yrði of lítil til að geta skilað arðsemi. Hins vegar vænta menn mikils af samstarfi við Rannsóknaþjónustuna Sýni og Frumherja hf. - matvælasvið. Í þessum fyrirtækum er til staðar mikil sérfræðiþekking, tækjakostur og reynsla sem mun nýtast þeim aðilum sem Matgæði ehf. kemur til með að þjóna.

Nú þegar hefur verið gengið frá ráðningu verkefnastjóra fyrirtækisins, Soffíu M. Gústafsdóttur, en hún hefur margra ára reynslu á sviði matvælaframleiðslu og ráðgjafar. Soffía hefur árum saman starfað hérlendis sem erlendis á þessu sviði og því aflað umtalsverðra markaðstengsla víða um heim.