Endurskoða þarf lífeyrissjóðalögin og kerfið í heild, en fjárfestingarheimildir eru óskýrar sem og ákvæði um áhættu. Er þetta meðal niðurstaðna í skýrslu nefndar um fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í dag og kom þar fram að endurskoða þurfi tryggingafræðilegt mat til að tryggja meiri stöðugleika í lífeyrisréttindum. Lágmarka þurfi áhrif markaðssveiflna á afkomu lífeyrisþega. Þá þurfi að endurskoða hlutverk og eftirlitsskyldu endurskoðenda sjóðanna. Leggur nefndin m.a. til að FME skipi sjóðunum ytri endurskoðendur.

Í skýrslunni segir jafnframt að mati á gæðum fjárfestinga, áhættuþáttum og eftirliti með þeim hafi víða verið ábótavant og segir nefndin að skjalfesta þurfi eftirlitsferla og áhættumat.

Hvað varðar gjaldeyrisvarnir sjóðanna segir að umdeilt sé hvort sjóðirnir hefðu átt að auka slíkar varnir eftir mitt ár 2007, en að ítarlegri ákvæði um gjaldmiðlavarnir verði sett í lög sjóðanna og að þeir endurskoði stefnu sína í þessum málum.