Matís hefur á undanförnum árum átt í samstarfi við matvælarisana PepsiCo og Nestlé og byggja fyrirtækin á þjónustu og hugviti sem þau kaupa af Matís. Af samkeppnisástæðum hefur mikil leynd hvílt á þessum verkefnum, að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, segir í samtali við blaðið, samstarfið skipta miklu máli, bæði fjárhagslega og faglega enda nemi tekjurnar af því tugum milljóna króna á hverju ári.

Sveinn segir ágætlega hafa gengið að finna ný verkefni fyrir Matís á alþjóðavettvangi. M.a. er verkefnið Mareframe, sem gengur út á að þróa fiskveiðistjórnunarlíkön þar sem tekið er tillit til sjálfbærni, umhverfis-, efnahagslegra og samfélagslegra þátta.. Það skilar Matís um einni milljón evra, í kringum 160 milljónum króna, á fjórum árum.

Þá er Matís að fara í gang með nýtt verkefni á næsta ári í samvinnu við bresku matvæla- og umhverfisrannsóknastofnunina. Verkefnið kallast Food Integrity eða Matarheilindi og miðar að því að þróa aðferðir til að greina svik í evrópskum matvælaiðnaði. Tekjur af verkefninu nema um 200 þúsund evrum á tveimur árum, jafnvirði um 33 milljóna íslenskra króna.