Fiskeldisfyrirtækið Matorka hefur lokið um 800 milljóna króna hlutafjárfjármögnun sem nýtist til stækkunar á eldisstöð fyrirtækisins á Reykjanesi. Áformað er að stórauka framleiðsluna á næstu mánuðum, en umframeftirspurn er á laxfiski í heiminum.

„Við erum að velta 700 milljónum króna í dag en sjáum fram á tvöföldun í veltu á næsta ári,“ segir Árni Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Matorku. Árið þar á eftir stefnir fyrirtækið að því að velta um 1,9 milljörðum króna. Um er að ræða yfir 100-földun í veltu frá árinu 2016, þegar velta Matorku nam rúmlega 18 milljónum króna.

Matorka er með fiskeldi á landi á tveimur stöðum á landinu. Að Fellsmúla í Landsveit á Suðurlandi á sér stað fyrsta stig seiðaeldis. Í Grindavík er seiðaeldi í eldri stöð og áframeldi í nýrri stöð. Félagið er jafnframt með fiskvinnsluhús í Grindavík.

Eldisaðferðir Matorku eru umhverfisvænar og ógna ekki villtum laxa- og silungastofnum. Eignarhald í Matorku skiptist jafnt milli innlendra og erlendra aðila, meðal annars Norðmanna. Meðal stærstu hluthafa Matorku eru hollenski sjóðurinn Aqua Spark, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í sjálfbæru fiskeldi.

Tvöfalda eldisstöðina

Framkvæmdir hafa staðið yfir á nýju eldisstöðinni í Grindavík, sem Matorka keypti árið 2016, en verið er að tvöfalda framleiðslugetu stöðvarinnar úr 1.500 tonnum í 3.000 tonn á ári. Matorka ræktar og slátrar enn sem komið er einungis hágæða bleikju, en hefur leyfi fyrir framleiðslu á bleikju, laxi og urriða.

Fyrr á árinu sótti Matorka um leyfi hjá Skipulagsstofnun til að tvöfalda eldisstöðina í Grindavík, úr 3.000 tonnum á ári í 6.000 tonn. Matorka hyggst hefja framleiðslu á lax á komandi misserum

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .