Mats Josefsson ráðunautur ríkisstjórnarinnar staðfesti ágreining við suma viðskiptabanknanna út af tillögum þeirra varðandi viðskiptalífið. Nefndin hefur sem kunnugt er lagt til að stofnað verði eignarumsýslufyrirtæki utan um stór fyrirtæki.

Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu kom fram að nefnd um endurreisn fjármálakerfisins, sem Mats veitir forstöðu, telur rétt að ríkisstjórnin íhugi stofnun eins miðlægs eignasýslufélags (ESF) sem sjái um endurskipulagningu stórra fyrirtækja sem skipta höfuðmáli fyrir íslenskt viðskiptalíf.

„Við erum ekki að stofna skrímsli,” sagði Mats þó sumum finnist félagið verða ansi umsvifamikið.

Það kom fram í máli Mats að þetta félag yrði að vera óháð bönkunum til að meðhöndlun félaga yrði öll sú sama. Mats sagðist telja að bankarnir hefðu ekki kunnáttu til að stýra félögunum með þessum hætti þó þeir segðust geta það.

Inn í þetta félag er gert ráð fyrir að renni 10 til 15 af stærstu félögum landsins og hefur nefndin beðið um lista frá bönkunum þar sem stærð viðskiptavina er tíunduð.