Mats Josefsson, hinn sænski efnahagsráðgjafi stjórnvalda, hefur ekki sett nein skilyrði fyrir áframhaldandi starfi „en hann hefur komið þeirri skoðun sinni skýrt á framfæri við stjórnvöld að það fyrirkomulag sem upphaflega var sett upp varðandi enduruppbyggingarstarfið í bankamálum hafi ekki verið eins skilvirkt og stefnt var að."

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari forsætisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokks, um skilyrði Mats Josefssonar fyrir áframhaldandi starfi.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra staðfesti á Alþingi fyrir nokkrum vikum að Mats Josefsson hefði hótað því að hætta að starfa fyrir stjórnvöld. Í framhaldinu lagði Eygló fram skriflega fyrirspurn til ráðherrans á Alþingi. Hún spurði hvaða skilyrði Mats hefði sett fyrir áframhaldandi starfi.

Svarinu var dreift á Alþingi í dag. Þar segir að frá lokum ársins 2008 hefði verið starfandi svonefnd samræmingarnefnd í bankamálum sem Mats Josefsson hefði stýrt.

„Í síðasta mánuði var ákveðið í fullu samráði við Mats Josefsson að breyta fyrirkomulagi þessara mála á þann hátt að í stað samræmingarnefndarinnar yrði sett á laggirnar tímabundinn stýrihópur um endurreisn bankakerfisins," segir í svarinu.

„Megintilgangur þessarar breytingar er að styrkja framkvæmd endurreisnarstarfsins enn frekar nú þegar nær dregur þeim tímapunkti að ríkið leggi nýju bönkunum til nýtt eigið fé þegar samningum við kröfuhafa gömlu bankanna lýkur. Stýrihópurinn hefur fundað mjög ört og að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum í viku. Í stýrihópnum sitja, auk Mats Josefssonar, seðlabankastjóri, sem stýrir starfi nefndarinnar, fulltrúi forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis auk aðstoðarmanna forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherra."

Í lok svarsins segir að Mats Josefsson hafi ekki sett nein skilyrði fyrir áframhaldandi starfi en því bætt við að með fyrrgreindu nýju fyrirkomulagi hafi verið brugðist við ábendingum Mats Josefssonar.

Svarið í heild má sjá hér.