Hagnaður veitingahúsafélagsins FoodCo nam tæpum 198 milljónum króna á árinu 2012 samanborið við 53 milljóna hagnað árið áður. Alls seldi félagið mat fyrir yfir 3 milljarða króna á síðasta ári. Sala nam rúmum 2,4 milljörðum árið 2011.

Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem nýverið var skilað til ársreikningaskrár RSK.

FoodCo á og rekur matsölustaðina American Style, Eldsmiðjuna, Aktu taktu, Greifann á Akureyri, Pítuna og Saffran. Eignir félagsins á síðasta ári námu um 1,7 milljörðum króna. Skuldir voru um 950 milljónir, þar af námu langtímaskuldir um 415 milljónum.

Alls störfuðu að meðaltali 450 manns hjá félaginu á árinu 2012 og fjölgaði þeim um 20 milli ára.