Leigufélagið Heimavellir tapaði 528 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2020, samanborið við 90 milljóna króna tap á sama tíma árið 2019. Tap félagsins það sem af er ári nemur 476 milljónum króna en félagið hagnaðist um 2,8 milljónir á fyrra hluta árs 2019. Þetta er meðal þess sem lesa má úr árshlutauppgjöri félagsins.

Mestu munar um matsbreytingar sem voru neikvæðar um 593 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi en jákvæðar um 41 milljón á sama tíma fyrir ári. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingar hefur lækkað lítillega, bæði á öðrum ársfjórðung og á fyrri hluta árs. Hann nam 460 milljónum á öðrum ársfjórðungi 2020 en 491 milljón á sama tíma 2019 og 940 milljónum á fyrri hluta ársins en nam 1.030 milljónum á síðasta ári.

Fram kemur í árshlutauppgjörinu að áhrif veirufaraldursins eru óljós, bæði til skemmri og lengri tíma. Megináhrifin munu mögulega felast í hækkun á vannýtingu leigueigna. Fyrir hverja prósentustigs hækkun á vannýtingu lækka leigutekjur um 31 milljón og gangvirði fjárfestingareigna lækkar um 645 milljónir króna.

Á öðrum ársfjórðungi drógust leigutekjur félagsins saman um 9,6% á milli ára og námu 770 milljónum. Fjárfestingaeignir hafa hins vegar aukist á þessu ári og nema nú 48,2 milljörðum króna en heildareignir félagsins nema 52 milljörðum. Ríflega 47% af leigutekjum Heimavalla var vegna starfsemi á höfuðborgarsvæðinu en 39% vegna leigu á Suðurnesi.

Skuldir félagsins voru 32,5 milljarðar króna, þar af 27,3 milljarðar vegna vaxtaberandi skulda. Eigið fé félagsins var lítið breytt í lok annars ársfjórðungs og nam 19,5 milljörðum. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok annars ársfjórðungs var 37,5%.