Hagnaður Félagsbústaða hf. nam 4.074 milljónum króna á fyrsta þremur mánuðum ársins. Matsbreyting fjárfestingaaeigna félagsins nam 4.047 milljónum króna á tímabilinu og skýrir því stóran hluta hagnaðarins. Rekstrarafkoma Félagsbústaða fyrir verðlagsbreytingar lána og matsbreytingu eigna nam 118 milljónum króna fyrstu þrjá mánuði ársins samanborið við 144 milljónir króna fyrir sama tímabil 2016. Það er 17,7% lækkun hagnaðar á tímabilinu. Félagsbústaðir er hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, sem á og rekur félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Reykjavíkurborg.

Rekstrartekjur Félagsbústaða á tímabilinu námu 851 milljónir króna sem er 5,3% aukning tekna frá sama tímabilinu 2016 aðallega vegna verðlagshækkunar leigu og stækkunar eignarsafnsins. Rekstrargjöld námu hins vegar 375 milljónum króna og hækkuðu miðað við sama tímabilið 2016 um 7,8%. Rekstrarhagnaður Félagsbústaða fyrir vaxtagjöld, verðbætur lána og matsbreytingu fjárfestingaeigna minnkaði um 1,7% miðað við sama tímabil 2016.

„Við mat á eignum Félagsbústaða til útleigu er stuðst við fasteignamat sem Þjóðskrá Íslands reiknar og tekur gildi í upphafi árs 2018 (verðmæti m.v. feb 2017), að teknu tilliti til 2,5% hækkunar á vísitölu íbúðaverðs í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu frá febrúar 2017 til loka tímabilsins. Matsbreyting fjárfestingaeigna félagsins nam 4.047 mkr þann 31.03. 2017 en var 737 mkr fyrir sama tímabil árið 2016,“ segir í fréttatilkynningu frá Félagsbústöðum.

Heildareignir Félagsbústaða hf. í lok tímabilsins námu 71,9 milljörðum kr. og jukust um 4,1 milljarða króna á tímabilinu frá áramótum, eða um 6,1%. Matsbreytingar fjárfestingaeigna skýra eignaaukninguna að stærstum hluta. Eigið fé félagsins nam 36,8 milljörðum.kr. í lok tímabilsins og jókstum tæpa 4,1 milljarða kr. frá áramótum, eða um 12,5%. Eiginfjárhlutfall var 51,2% en var 48,3% í árslok 2016.