Hlutabréfaverð McDonald’s, skyndibitakeðjunnar bandarísku, jókst um heil 25% á liðnu ári. Hlutabréfaverð fyrirtækisins er þá rétt tveimur prósentustigum frá því að ná hæsta verði í sögu félagsins á ný.

Félagið gerir ráð fyrir 5% söluaukningu árið 2016. Verð á hlut í fyrirtækinu nemur nú um 118,4 Bandaríkjadölum, en á árstímabili hefur hlutabréfaverð hækkað um rúm 27%. Á síðustu fimm árum, hins vegar, hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 45%.

Velgengni félagsins stafar helst af því að gerðar voru tiltölulega róttækar matseðilsbreytingar á árinu. Steve Easterbrook tók við sem framkvæmdastjóri keðjunnar fyrir um það bil ári, og hann einsetti sér strax að koma á breytingum í fjölbreytni matseðils staðarins.

Mikilvægasta breytingin var að sögn framkvæmdastjórans sú að morgunverðarmatseðill skyndibitastaðarins var látinn vara allan daginn. Fyrrum hafði hann aðeins verið til boða þar til 10:30 um morgun, en eftir að tímamörkunum var sleppt stórjukust sölur á morgunverðarmatseðlinum.