Landsvirkjun sendi í gær Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar Kröfluvirkjunar II í Suður-Þingeyjarsýslu og gerir sér vonir um ákvörðun stofnunarinnar muni liggja fyrir ekki síðar en 22. ágúst nk. Landsvirkjun hyggst reisa við Kröflu allt að 150 MWe jarðhitavirkjun, til viðbótar við núverandi Kröflustöð sem er 60 MWe. Framkvæmdir eru matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Virkjað fyrir álver á Bakka

Jarðhitasvæðið í Kröflu er talið vera eitt af þremur stærstu jarðhitasvæðum á Norðurlandi eystra og er áformuð Kröfluvirkjun II liður í virkjun háhita á þeim slóðum, þ.e. fyrir utan Kröflusvæðis á Þeistareykjum, Bjarnarflagi og Gjástykki. Allar þessar áformuðu gufuaflsvirkjanir eiga að útvega álveri á Bakka við Húsavík, með allt að 250 þúsund tonna framleiðslugetu á ári, orku eða hugsanlegum orkukaupendum öðrum. Landsvirkjun er framkvæmdaraðilinn og hefur gert samning við landeigendur um rannsókna- og nýtingarétt.

Úrskurður ráðherra um kæru ókominn

Skipulagsstofnun tók þá ákvörðun í febrúar síðast liðnum að ekki þyrfti að meta sameiginlega umhverfisáhrif allra framkvæmda vegna álvers á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjunar, stækkunar Kröfluvirkjunar og háspennulína þeim samfara. Landvernd kærði þennan úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og á hann eftir að kveða upp úrskurð um kæruna. Samhliða mati á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II vinna Þeistareykir ehf. að mati á umhverfisáhrifum jarðhitavirkjunar á Þeistareykjum og Landsnet hf. að mati á umhverfisáhrifum háspennulínu frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum að Bakka.