Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's segir fyrirframgreiðslu á lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lánum frá Norðurlöndunum sem veitt voru í kjölfar efnahagshrunsins hér góðar fréttir og geta bætt ímynd landsins út á við.

Moody's reiknast til að fyrirgreiðslan spari stjórnvöldum 10 milljarða króna í vaxtagreiðslur auk þess sem hún lækki skuldir hins opinbera um 2,7% af landsframleiðslu.

Umfjöllun Moody's er birt á heimasíðu Seðlabankans.

Endurgreiðslur lána nema 705 milljónum evra, jafnvirði um 118 miljarða króna. Það er rétt rúmur fimmtungur af heildaskuldbindingum stjórnvalda og Seðlabankans gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Það jafnast á við að búið sé að greiða afborganir AGS-lánanna næstu fjögur árin og hluta af Norðurlandalánunum sem eru á gjalddaga árið 2016.