Matsfyrirtækið Moody's segir að Baa3 lánshæfiseinkunn Íslands endurspegli batnandi ástand hagkerfisisns og ríkisfjármála, en að vandamál tengd afnámi gjaldeyrishafta og skuldastöðu íslenska ríkisins setji strik í reikninginn. Horfur eru metnar stöðugar.

Þetta kemur fram í árslegri matsskýrslu um Ísland. Skýrslan er gefin út í kjölfar reglulegrar heimsóknar sérfræðinga Moody´s til landsins og felur ekki í sér breytingu á lánshæfismati.

Styrkur íslenska hagkerfisins er þar sagður ágætur. Auður sé hér mikill, en á móti komi smæð og fábreytileiki hagkerfisins. Til skamms tíma séu möguleikar til hagvaxtar töluverðir þótt dregið hafi úr hagvexti síðasta ár. Til miðlungslangs tíma munu vaxtarmöguleikar ráðast að miklu leyti af fjárfestingu, sem aftur muni ráðast af því hve hratt er hægt að afnema gjaldeyrishöft.

Styrkur íslenskra stofnana er metinn mikill í skýrslunni. Hins vegar er fjárhagslegur styrkur íslenska ríkisins talinn lítill, einkum vegna erfiðrar skuldastöðu þess. Þó er á það bent að tekist hafi að minnka fjárlagahallann umtalsvert frá árinu 2008 og að árið 2012 hafi hlutfall skulda ríkisins af vergri landsframleiðslu dregist saman í fyrsta sinn frá hruni. Þá er bent á að ábyrgðir ríkisins séu mjög miklar og stafi einkum af skuldbindingum Íbúðalánasjóðs.

Hvað varðar framtíðaráhættu og möguleika Íslands til að þola áföll í framtíðinni þá eru þeir taldir ágætir. Stærsti áhættuþátturinn tengist afnámi hafta og segir Moody's að of hratt afnám hafta sé helsta hættan á sjóndeildarhringnum. Stjórnvöld séu hins vegar meðvituð um þessa hættu. Bankakerfið er sagt vel í stakk búið til að takast á við afnám hafta, enda sé eiginfjárhlutfall íslenskra banka mjög hátt.